14 Desember 2009 12:00

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu leitar leigubílstjóra í tengslum við rannsókn máls hjá embættinu. Hann er talinn vera um fertugt, 175 sm á hæð og með músarlitað eða dökkt, stutt hár. Maðurinn er íslenskur og 10-15 kg yfir kjörþyngd. Leigubíllinn sem hann ók gæti verið Honda eða Toyota-jepplingur en svokallað Taxa-merki var á bílnum. Gjaldmælir var líka í bílnum og sætin trúlega klædd leðri.

Málavextir eru þeir að umræddur maður ók leigubíl í miðborginni aðfaranótt sunnudagsins 29. nóvember en þá um nóttina, kl. 04:07, tók kona á þrítugsaldri sér far með bílnum. Hún settist í framsætið við hlið ökumanns og bað um akstur í Árbæ. Þetta mun hafa verið á gatnamótum Bankastrætis og Lækjargötu en leigubíllinn var þá kyrrstæður við umferðarljós. Bílnum var síðan ekið í áttina að Tónlistarhúsinu og þaðan áfram úr miðborginni. Ökuferðinni lauk svo við heimili konunnar í Árbæ. Þar var leigubílnum lagt í bifreiðastæði en leigubílstjórinn fór inn með konunni og hafði við hana samræði. Konan var verulega ölvuð og man atburði óljóst. Hún er um 160 sm á hæð með axlarsítt, svart hár. Konan var  klædd í svartan jakka, fjólubláan kjól, svartar leggings og háhælaða leðurskó.

Þeir sem geta veitt upplýsingar um málið eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu í síma 444-1000.