6 Ágúst 2016 01:22

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu leitar tveggja manna og ökutækis í kjölfar aðgerða hennar og sérsveitar ríkislögreglustjóra í Fellahverfi í Breiðholti í kvöld. Tilkynnt var um tvo skothvelli í hverfinu um hálfníuleytið í kvöld, líkt og fram hefur komið, en að sögn vitna var skotið á bifreið á svæðinu. Tvímenningarnir eru grunaðir um að hafa staðið fyrir því og er þeirra leitað. Bifreiðin, sem skotið var á, er sömuleiðis ófundin og einnig þeir sem í henni voru, en ekki er vitað hvort hinir sömu hafi slasast. Lögreglan hvetur þá sem voru í bifreiðinni til að gefa sig fram, sem og mennina tvo sem grunur leikur á að hafi verið þar að verki.

Lögreglan telur nú að atvikið í Fellahverfi tengist deilum innan þröngs hóps og að hún beinist ekki að almenningi.