6 Mars 2008 12:00

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu leitar karls sem reyndi að stela fartölvum úr verslun í Borgartúni um kaffileytið í gær. Samkvæmt lýsingum vitna er maðurinn 170-175 sm á hæð, grannvaxinn og dökkhærður með ljósar strípur en þess má geta að einnig náðust myndir af ræningjanum. Hann var klæddur í svarta úlpu, hvíta peysu innan undir, og í dökkar buxur.

Ræninginn fjarlægði þjófavörn af tölvunum og hugðist halda með þær á brott en afgreiðslumaður freistaði þess að hindra för hans. Utan við verslunina kom til átaka og slasaðist afgreiðslumaðurinn lítilsháttar en ræninginn komst undan tómhentur því tölvurnar urðu eftir á vettvangi.

Þeir sem geta gefið upplýsingar um málið eru beðnir að hafa samband við lögregluna í síma 444-1000.