23 Janúar 2013 12:00
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu óskar eftir að ná tali af tveimur konum sem komu karli á áttræðisaldri til aðstoðar á Nýbýlavegi í Kópavogi laugardaginn 12. janúar sl. í kjölfar þess að bíl mannsins, svörtum Mercedes Benz með skráningarnúmerinu B 747, var stolið. Þetta var um fimmleytið áðurnefndan dag en maðurinn tilkynnti sjálfur um málið til lögreglu símleiðis. Hún fór þegar á staðinn en þá voru konurnar farnar af vettvangi, en maðurinn kvartaði hins vegar undan eymslum eftir átök við bílþjófinn og var í framhaldinu fluttur á slysadeild. Hafi aðrir orðið vitni að því þegar bílnum var stolið eru hinir sömu einnig beðnir um að hafa samband við lögregluna í síma 444-1000 en jafnframt má senda upplýsingar í tölvupósti á netfangið abending@lrh.is
Upphaf málsins má rekja til þess að skömmu áður, eða á fimmta tímanum þennan fyrrnefnda dag, ók maðurinn austur Hverfisgötu í Reykjavík en þar kom karl á þrítugsaldri inn í bílinn. Mennirnir urðu síðan samferða á Nýbýlaveg í Kópavogi en eftir að þangað var komið kom til einhverra átaka og orðaskipta. Þeim lauk með því að yngri maðurinn hrifsaði bíllyklana af þeim eldri og ók á brott. Bíllinn fannst nokkrum dögum seinna og var karl á þrítugsaldri þá handtekinn í þágu rannsóknarinnar. Reyndist það vera sami maður og hafði þegið far hjá þeim eldri laugardaginn 12. janúar og farið með honum í Kópavog. Viðkomandi hefur játað að hafa stolið bílnum.