19 Febrúar 2004 12:00

Í ár líkt og undanfarin ár býður lögreglan í Reykjavík eldri borgurum upp á fræðsluferðir sem farnar eru frá félagsmiðstöðvum aldraðra. Lögreglan vinnur að þessu verkefni í samstarfi við ýmsa aðila. Með ferðunum gefst lögreglunni tækifæri til að kynnast þessum aldurshópi betur, hlusta á sjónarmið þeirra og koma á framfæri ýmsum gagnlegum upplýsingum. M.a. er rætt um umferðar- og öryggismál.

Í ár eru farnar 7 ferðir með eldri borgara, dagana 25., 26. og 27. febrúar og 4., 5., 10. og 11. mars. Langferðabílar frá Hópbílum leggja af stað frá félagsmiðstöðvum aldraðra kl. 13:00 þessa daga sem ferðir hafa verið skipulagðar.

Ekið verður um nýjasta borgarhverfi Reykjavíkur, Grafarholt, og fólkinu sýnt það markverðasta sem þar er að sjá. Að því loknu er farið í heimsókn til fyrirtækja sem bjóða upp á skipulagða leiðsögn og fræðslu um starfsemi sína. Fyrirtækin bjóða gestum upp á hressingu í lok heimsóknar.

Lögreglumenn sjá um að fræða fólkið um umferðarmál svo og önnur öryggismál.

Reiknað er með því að ferðinni ljúki um kl. 16:00.

Fyrirtækin sem taka á móti eldri borgurum í ár eru: Osta- og smjörsalan, Mjólkursamsalan og Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins.

Hópbílar, Lögreglan í Reykjavík, Tryggingamiðstöðin, KB banki og Olíufélagið ESSO ehf leggja fram fjármagn sem gera ferðirnar mögulegar.

Þorvaldur Daníelsson starfsmaður Hópbíla hefur séð um undirbúning ferðanna ásamt lögreglumönnum úr Forvarna- og fræðsludeild Lögreglunnar í Reykjavík.