9 Nóvember 2015 15:07

Vegna frétta um rannsóknir tveggja kynferðisbrota, sem fjallað hefur verið um í fjölmiðlum í dag og undanfarna dag, vill Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu taka fram að málin eru í algjörum forgangi hjá kynferðisbrotadeild embættisins og allt kapp er á lagt að upplýsa þau. Rannsókn þeirra miðar vel, en eðli málsins samkvæmt getur lögreglan hins vegar ekki upplýst um málsatvik, m.a. með tilliti til meintra þolenda. Nauðsynlegt er þó að taka fram að sumt í umfjöllun fjölmiða er ekki í samræmi við fyrirliggjandi rannsóknargögn lögreglu.

Lögreglan hefur fundið fyrir mjög sterkum viðbrögðum í samfélaginu í kjölfar umfjöllunar fjölmiðla um áðurnefnd mál, og hafa henni borist fjölmargar fyrirspurnir áhyggjufullra borgara vegna þessa, ekki síst á samfélagsmiðlum embættisins. Það er skiljanlegt og undirstrikar mikilvægi þess að Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu haldi stöðugt áfram að vinna að grundvallarmarkmiði sínu, sem er að tryggja öryggi og öryggistilfinningu þeirra sem búa, starfa og dvelja í umdæmi hennar.