18 Desember 2014 15:51

Svo heppilega vildi til í síðustu viku að tveir lögreglumenn voru við umferðareftirlit á gatnamótum Miklubrautar og Grensásvegar í Reykjavík þegar barnshafandi kona og maðurinn hennar óku þar um. Konan var komin með hríðir og barnið væntanlegt í heiminn á hverri stundu og því lá henni á að komast strax á fæðingardeildina, en töluverð umferð var þegar þetta átti sér stað. Hér mátti engan tíma missa og því fengu hjónin lögreglufylgd með forgangi á Landspítalann, en þar fæddist þeim myndarleg dóttir fáeinum mínútum síðar.

Að sjálfsögðu var þetta eftirminnilegasta verkefni umræddra lögreglumanna á vaktinni þann daginn, en lögreglan hefur sinnt mörgum aðstoðarbeiðnum af þessu tagi í gegnum árin. Þess má t.d. geta að fyrir þremur árum kom stúlka í heiminn í bifreið á Miklubraut, ekki fjarri þeim stað þar sem lögreglan kom hjónunum til aðstoðar um daginn, og hér hefur verið rakið.

Hjónin sendu lögreglumönnunum tveimur kveðju og þakkir á fésbókarsíðu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og var því að sjálfsögðu komið á framfæri. Litla stúlkan er þriðja barn hjónanna, en fyrir eiga þau strák og stelpu, 3 ára og 1 árs.