22 Mars 2007 12:00
Karlmaður um tvítugt var handtekinn í austurborginni í gærkvöld en í fórum hans fundust 2 grömm af ætluðu amfetamíni. Í framhaldinu var leitað í bíl mannsins og þá fann lögregluhundur um 30 grömm til viðbótar af sama efni sem voru falin í ökutækinu. Hjá manninum fundust einnig tæki og áhöld til neyslu og dreifingar á fíkniefnum.
Nokkur önnur fíkniefnamál komu til kasta lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í gær. Um kvöldmatarleytið var þrítugur karlmaður tekinn í Hafnarfirði en hann er grunaður um fíkniefnamisferli. Á sama tíma voru höfð afskipti af karlmanni á sextugsaldri fyrir sömu sakir en sá var stöðvaður í miðborginni. Um hádegisbil fóru lögreglumenn í íbúðarhús á sama svæði og handtóku þrjá karlmenn og eina konu. Á staðnum fundust ætluð fíkniefni, vopn og nokkrir munir sem taldir eru vera þýfi. Við leitina var notaður annar lögregluhundur sem líka sannaði gildi sitt.
Í nótt voru karlmaður og kona handtekin í Breiðholti og færð á lögreglustöð en í fórum þeirra fundust ætluð fíkniefni. Þá var karlmaður um fimmtugt stöðvaður í útjaðri borgarinnar í gærmorgun en á honum fundust líka ætluð fíkniefni.