21 Desember 2007 12:00

Sérþjálfaðir hundar hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu hafa undanfarna daga enn og aftur sannað gildi sitt. Þeir hafa m.a. þefað uppi fíkniefni í húsum og bílum sem hefðu ekki fundist nema með þeirra aðstoð. Þá vann lögregluhundurinn Neró svo sannarlega fyrir kaupinu sínu í fyrrakvöld en hann leiddi lögreglumenn að bareflum og grímum sem tveir unglingspiltar köstuðu frá sér á víðavangi eftir þeir frömdu rán í Grímsbæ. Lögreglumenn höfðu árangurslaust leitað þessara hluta áður en Neró kom á vettvang en hundurinn sá var fljótur að finna verkfæri pörupiltanna. Eins og gefur að skilja eru bareflin og grímurnar mikilvæg sönnunargögn í málinu.