9 Júlí 2007 12:00

Tveir karlar og kona voru færð á lögreglustöð á sunnudagsmorgun en í fórum þeirra fundust lyf sem þau gátu ekki gert grein fyrir. Fólkið, sem er um tvítugt og var í annarlegu ástandi, var stöðvað við hefðbundið eftirlit en í bíl þess fundust einnig ætluð fíkniefni sem voru vandlega falin. Það var sérþjálfaður lögregluhundur sem fann fíkniefnin en fjórfætlingarnir í hundadeild LRH hafa heldur betur sannað gildi sitt undanfarnar vikur og mánuði.

Ætluð fíkniefni fundust jafnframt í tveimur öðrum bílum sem lögreglan stöðvaði um helgina. Öðrum ók 19 ára piltur sem var tekinn í miðborginni á laugardag. Sá var í annarlegu ástandi og var færður á lögreglustöð. Sömu leið fór farþegi í bílnum en hann var með ætluð fíkniefni í fórum sínum. Hinn bílinn var stöðvaður í Garðabæ aðfaranótt mánudags en undir stýri var sömuleiðis 19 ára piltur. Með honum í för var karlmaður, nokkru eldri, en báðir voru handteknir. Þeir eru grunaðir um fíkniefnamisferli.