30 Maí 2022 09:42
Starfsfólk Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu fæst við ýmislegt utan vinnutímans og áhugamál þess eru margskonar. Jökull Gíslason rannsóknarlögreglumaður er t.d. mikill áhugamaður um seinni heimsstyrjöldina og hefur skrifað þrjár bækur þar sem hún kemur við sögu með mismunandi hætti. Nýjasta bókin, Örlagaskipið Arctic, kom út á dögunum, en í henni eru í brennidepli íslenskir sjómenn í ólgusjó seinni heimsstyrjaldarinnar. Sagan verður ekki rakin hér, en þess má geta að í áhöfn skipsins var Guðni Thorlacius, afi Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands. Guðni eldri var stýrimaður og síðar skipstjóri á Arctic.
Af þessu tilefni var Jökli boðið til Bessastaða og þar færði hann forsetanum eintak af bókinni.