10 Júní 2005 12:00

Lögreglan í Reykjavík hefur að undanförnu aukið notkun reiðhjóla við löggæslu.  Fara lögreglumenn yfirleitt tveir saman og þá helst um þau svæði þar sem gangandi fólk er flest á ferð og erfiðara að komast um á bifreiðum en reiðhjólum.  Hefur þessi löggæsla gefið góða raun og  má meðal annar geta þess að síðastliðna nótt handtóku tveir lögreglumenn á reiðhjólum, ökumann fyrir utan veitingastað við Laugaveg.  Veittu lögreglumennirnir ökumanninum athygli þar sem hann ók bifreið sinni allgreitt niður Laugarveg og stöðvaði fyrir utan veitingastað.  Höfðu þeir tal af ökumanninum þar sem hann sat undir stýri bifreiðarinnar.  Vaknaði þá grunur um að ökumaður væri ölvaður.  Var hann  því færður á lögreglustöð til töku blóðsýnis.