5 Október 2019 09:30
Fréttir af flutningi lögreglunnar úr Pósthússtræti á Hverfisgötu voru allnokkrar í dagblöðunum í byrjun nóvember árið 1972 enda um mikil tíðindi að ræða. Haldin var móttaka í nýja húsinu daginn áður en flutningarnir hófust og vitnar Morgunblaðið í ræðu lögreglustjórans, Sigurjóns Sigurðssonar, sem var haldin við það tilefni. „Slæmar aðstæður og húsnæðisskortur hefir verið lögreglumönnum og öðru starfsfólki til mikilla óþæginda og hefur auk þess hamlað mjög löggæzlustarfi í borginni og dregið úr eðlilegri þóun þess. Hin nýja lögreglustöð við Hverfisgötu mun gjörbreyta til hins betra húsnæðisaðstöðu lögreglunnar og skapa möguleika á nauðsynlegum skipulagsbreytingum. Nú þegar hin gömlu húsakynni í Pósthússtræti 3 verða yfirgefin flytja lögreglumenn með sér margar minningar þaðan. Eins og tíðkast um trygglynda menn, munu ýmsir sakna vinnustaðar eftir margra ára viðkynningu. Samt sem áður er það mikið fagnaðarefni, að sá dagur skuli vera upprunninn, er lögreglumenn flytjast í ný og glæsileg húsakynni, sem þeir hafa beðið eftir í langan tíma. Góðir óskir fylgja þeim þangað.“ Forsætis- og dómsmálaráðherra, Ólafur Jóhannesson, tók líka til máls við þetta tækifæri eins og mátti sömuleiðis lesa um í Morgunblaðinu. „Nú er merkum áfanga náð til þæginda fyrir lögreglumenn og hinn almenna borgara, sem lögreglan á að þjóna. Þetta er vandað hús og traustlegt. Þetta er ekki glerhús, þó störf þeirra manna sem hér vinna séu oft unnin sem í glerhúsi væri. Þeir verða að þola það að störf þeirra séu stöðugt undir smásjánni. En starf lögregluþjónsins er mikilvægt fyrir þjóðfélagið.“
Í blaðinu var einnig vikið að kostnaði vegna framkvæmdanna. „Heildargreiðslur vegna byggingakostnaðar lögreglustöðvarinnar nýju hafa til dagsins í dag numið tæplega 122 milljónum króna. Endanlegar tölur um fjárþörf til að ljúka byggingunni og til kaupa á fjarskiptabúnaði, stjórnunarmiðstöð, talsímakerfi og vararafstöð liggja ekki fyrir nú, en lögreglustjóri taldi, að til þeirra þyrfti á þriðja tug milljóna króna.“