21 September 2019 09:30

Bygging lögreglustöðvarinnar við Hverfisgötu í Reykjavík hófst í árslok 1961, en húsið teiknaði hinn landskunni arkitekt og íþróttafrömuður, Gísli Halldórsson. Lögreglustöðin var tekin í notkun í áföngum eftir því sem byggingarframkvæmdum miðaði áfram. Hornsteinn var lagður 1963 og 1966 flutti umferðardeildin úr bragga við Snorrabraut og í kjallara hússins og Lögregluskólinn fékk líka inni í nýju lögreglustöðinni um svipað leyti, en á fyrstu hæðinni. Í ársbyrjun 1970 fjölgaði enn í húsinu, en þá var tekin þar í notkun fullkomin fangageymsla á 2. hæð. Það var svo 4. nóvember 1972 sem lögreglan flutti alfarið með starfsemi sína úr gömlu lögreglustöðinni í Pósthússtrætinu og í nýju stöðina á Hverfisgötu. Samhliða var reyndar lengi starfrækt lítil lögreglustöð í Tryggvagötu, en sú saga verður ekki rakin hér.

Menn voru stórhuga þegar bygging lögreglustöðvarinnar á Hverfisgötu var annars vegar, en tvær bygginganna á þessu líkani urðu ekki að veruleika, þ.e. austanmegin og á norðanverðri lóðinni. Þá var ennfremur fallið frá því að byggja 6. hæðina og þakhýsi þar ofan á.

Á þessari loftmynd af Hverfisgötu 113-115 má sjá bæði bensínstöð og hús vörubílastöðvarinnar Þróttar á lóðinni. Margt hefur því breyst frá þessum tíma og það á líka við um næsta nágrenni lögreglustöðvarinnar eins og sést hér glögglega.

Margt fyrirmenna var samankomið þegar hornsteinn var lagður að lögreglustöðinni 1. júní 1963, en við látum lesendum eftir að þekkja þessa þjóðkunnu menn á myndinni.