4 Júní 2007 12:00
Sautján ára piltur kom á lögreglustöð á höfuðborgarsvæðinu síðdegis í gær og kvaðst ekki finna bílinn sinn og taldi jafnvel að honum hefði verið stolið. Það er auðvitað mjög bagalegt þegar slíkt gerist en í þessu tilfelli átti þetta sér ákveðnar skýringar. Við athugun kom í ljós að bílnum hafa verið ekið inn í garð í Kópavogi nóttina áður og ökumaður hlaupið af vettvangi. Dráttarbíll var kallaður til og því var bíll unga mannsins á bak og burt þegar hann leitaði hans daginn eftir. Pilturinn varð að vonum ánægður með þessar fréttir og sá fram á að endurheimta bílinn. Málinu var samt hvergi nærri lokið því grunsemdir vöknuðu hjá lögreglu um að hér byggi eitthvað meira að baki. Ungi maðurinn var því spurður í þaula og fór svo að hann viðurkenndi að hafa sjálfur verið undir stýri umrædda nótt. Hann játaði sömuleiðis að hafa verið undir áhrifum áfengis þegar óhappið átti sér stað. Mál piltsins fer nú sína leið í kerfinu en hann má búast við ökuleyfissviptingu og fjársekt.