20 Febrúar 2007 12:00

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lýsir eftir vitnum að ofsaakstri tveggja ökumanna um síðustu helgi þar sem nánast allar umferðarreglur voru þverbrotnar. Öðrum var veitt eftirför um fjölmargar götur borgarinnar frá klukkan 22:40 á föstudagskvöld. Sá ók gráum Hyundai Elantra en leið hans lá m.a. um Miklubraut, Skeiðarvog, Suðurlandsbraut (austur), Sæbraut, Reykjanesbraut, Smiðjuhverfi í Kópavogi, Stekkjarbakka, Höfðabakka, Arnarbakka, Álfabakka, Reykjanesbraut og Sæbraut að gatnamótum Súðarvogs þar sem lögreglan stöðvaði för hans. Ökumaðurinn, 21 árs karlmaður, hefur ítrekað gerst sekur um umferðarlagabrot. Hann var með útrunnið ökuskírteini. Með honum í bílnum voru tveir piltar, báðir 18 ára.

Hinum ökumanninum var veitt eftirför frá klukkan 4:41 aðfaranótt laugardags. Sá ók ljósgráum Mercedes Benz en leið hans lá um Suðurlandsveg, Breiðholtsbraut og Reykjanesbraut að Mjódd þar sem lögreglan stöðvaði för hans. Ökumaðurinn, 21 árs karlmaður, hefur nokkrum sinnum áður gerst sekur um umferðarlagabrot.

Báðir ökumennirnir eru jafnframt grunaðir um ölvunarakstur. Þeir voru yfirheyrðir um helgina. Annar bar við minnisleysi en hjá hinum var líka fátt um svör. Með háttalagi sínu stefndu þeir sjálfum sér og öðrum í mikla hætta en brot þeirra geta varðað allt að 6 ára fangelsi. Þeir sem geta gefið upplýsingar um málin eru beðnir að hafa samband við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu í síma 444-1000. Sérstaklega er óskað eftir að ökumaður hvítrar Mercedes Benz sendibifreiðar gefi sig fram. Sá ók Breiðholtsbraut á sama tíma og annar ökufantanna var þar á ferð.