19 Ágúst 2010 12:00

Maður var yfirheyrður í gærkveldi vegna rannsóknar á andláti Hannesar Þórs Helgasonar og í framhaldi af því hafður áfram í haldi lögreglunnar. Nánari rannsókn á atriðum honum tengdum leiddi í ljós að ekki voru efni til að krefjast gæsluvarðhalds yfir honum. Maðurinn var því látinn laus nú fyrir stundu.

Allt kapp er lagt á að upplýsa málið og handsama þann sem banaði Hannesi. Rannsókn lögreglu heldur áfram m.a. með yfirheyrslum yfir öllum þeim sem tengjast málinu með einum eða öðrum hætti .  Vinnu tæknideildar lögreglunnar á vettvangi er að mestu lokið. Lífsýni, sem þar voru tekin, eru send á rannsóknarstofu í Svíþjóð til greiningar þar sem aðstaða til slíks er ekki fyrir hendi hér á landi. Jafnframt er unnið úr öðrum gögnum sem aflað hefur verið. Þá er verið að vinna úr ýmsum ábendingum sem borist hafa frá almenningi.

Lögreglan hvetur hvern þann sem telur sig búa yfir upplýsingum sem skipt geta máli fyrir rannsóknina að koma þeim á framfæri í síma 444-1104.