6 Júní 2012 12:00

Kona á sextugsaldri hefur viðurkennt að hafa staðið að framleiðslu og sölu fíkniefna. Hún játaði sök við yfirheyrslu eftir að lögreglan hafði stöðvað kannabisræktun á heimili hennar í vesturbæ Reykjavíkur í síðustu viku en þar var einnig að finna talsvert af tilbúnu marijúana. Sonur konunnar var einnig yfirheyrður í þágu rannsóknarinnar en hann mun hafa komið að sölu fíkniefnanna. Konan, sem upplýsti að kannabisræktunin hefði staðið yfir í nokkurn tíma, var mjög ósátt með afskipti lögreglu og taldi að laganna verðir ættu frekar að einbeita sér að þeim sem væru stórtækir við framleiðslu og sölu fíkniefna. Sjálf væri hún ekki í þeim hópi.