22 September 2017 16:50

Erlendur karlmaður á fertugsaldri var í dag í Héraðsdómi Reykjavíkur úrskurðaður í vikulangt gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna að kröfu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í þágu rannsóknar hennar á manndrápi. Maðurinn var handtekinn í fjölbýlishúsi í vesturbæ Reykjavíkur í gærkvöld, en þar varð kona á fimmtugsaldri fyrir líkamsárás. Konan var flutt á Landspítalann þar sem hún var úrskurðuð látin. Íslenskur karlmaður á þrítugsaldri var einnig handtekinn í tengslum við málið, en ekki var farið fram á gæsluvarðhald yfir honum og er hann laus úr haldi lögreglu.

Rannsókn málsins er í forgangi hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, en ekki er unnt að veita frekari upplýsingar um framgang hennar að svo stöddu.