16 Ágúst 2010 12:00

Rannsókn lögreglu á manndrápi sem átti sér stað í heimahúsi við Háaberg í Hafnarfirði í gær heldur áfram og er mjög umfangsmikil. Hinn látni hét Hannes Þór Helgason, fæddur árið 1973.

Rannsóknin bendir til þess að atlagan hafi átt sér stað á heimili mannsins en hann var einn heima þessa nótt. Gögn benda til þess að ráðist hafi verið að honum nokkrum klukkustundum áður en unnusta hans kom að honum látnum laust fyrir hádegi í gær. Við atlöguna var eggvopni beitt og honum veitt nokkur stungusár sem drógu hann til dauða.

Fjölmargir hafa verið yfirheyrðir vegna rannsóknarinnar en enginn er í haldi lögreglu vegna þess. Lögreglan biður þá sem upplýsingar geta gefið í tengslum við rannsókn málsins um að hafa samband í 444-1104.