18 Ágúst 2009 12:00

Karl um þrítugt hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald til 1. september að kröfu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og er það gert á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Maðurinn var handtekinn á Dalshrauni í Hafnarfirði í gærkvöld en í húsi við götuna fann lögreglan karl á svipuðum aldri sem var látinn þegar að var komið. Hinn látni var með áverka á höfði sem taldir eru hafa dregið hann til dauða. Maðurinn sem er í haldi er grunaður um verknaðinn en hann hefur áður komið við sögu hjá lögreglu, m.a. vegna ofbeldis- og fíkniefnabrota. Hann var blóðugur og í annarlegu ástandi þegar lögreglan kom á vettvang í Hafnarfirði í gærkvöld. Maðurinn var yfirheyrður í dag en ekki er hægt að greina frekar frá rannsókn málsins að svo stöddu.