6 September 2010 12:00

Tveir 15 ára piltar gáfu sig fram við lögreglu um helgina og framvísuðu hnífi sem þeir höfðu fundið í smábátahöfninni í Hafnarfirði. Þeir munu hafa fundið hnífinn fyrir nokkrum dögum síðan og tekið hann til handargagns. Ekki áttuðu þeir sig á mögulegum tengslum við rannsóknina á morðinu á Hannesi Þór Helgasyni fyrr en þeir fréttu af því að kafarar lögreglu væru við leit að morðvopninu í smábátahöfninni.

Hnífurinn, sem samsvarar vel til lýsingar og hugmynda sem lögreglan hefur af morðvopninu, verður sendur á rannsóknarstofu lögregluyfirvalda í Svíþjóð til rannsóknar. Niðurstaða þeirrar rannsóknar mun síðan skera úr um hvort hnífurinn tengist  málinu.