4 September 2010 12:00

Íslenskur karlmaður á þrítugsaldri hefur játað að hafa orðið Hannesi Þór Helgasyni að bana þann 15. ágúst sl. en þetta kom fram á blaðamannafundi sem haldinn var á lögreglustöðinni við Hverfisgötu í Reykjavík nú síðdegis. Málið telst í meginatriðum vera upplýst en morðvopnið er þó ófundið. Að því er nú leitað, m.a. með aðstoð kafara frá sérsveit ríkislögreglustjóra. Rannsókn málsins hefur verið mjög umfangsmikil og að henni hafa komið á fjórða tug starfsmanna hjá embættinu. Lætur nærri að rætt hafi verið við um allt að 100 manns í tengslum við rannsóknina. Enn eiga eftir að berast niðurstöður vegna sýna sem voru tekin í þágu rannsóknarinnar og send til rannsóknar erlendis.

Það voru þeir Jón H.B. Snorrason, aðstoðarlögreglustjóri og saksóknari, Friðrik Smári Björgvinsson yfirlögregluþjónn og Björgvin Björgvinsson aðstoðaryfirlögregluþjónn sem gerðu grein fyrir málinu á blaðamannafundinum. Hjá Jóni kom fram m.a. þetta: Nú fyrir stundu gerði ég ríkissaksóknara grein fyrir stöðu rannsóknar vegna ætlaðs manndráps þegar Hannesi Þór Helgasyni var ráðinn bani á heimili sínu að Háabergi 23 í Hafnarfirði þann 15. ágúst sl.  Ríkissaksóknara, sem hefur ákæruvald í slíkum málum, var gerð grein fyrir því að málið teldist upplýst í meginatriðum. Rannsóknin hefur verið mjög umfangsmikil og flókin en hún leiddi fyrir rúmlega viku til handtöku 23 ára gamals manns sem í framhaldi var, á grundvelli rökstuddra grunsemda, úrskurðaður til þess að sæta gæsluvarðhaldi í þágu rannsóknar málsins eða allt til  föstudagsins 24. september nk. Mat á því að málið telst upplýst byggir á rannsóknum og rannsóknarniðurstöðum og síðar játningu þess handtekna.  Ekkert bendir til annars en að hinn handtekni hafi staðið einn að verki. Ýmsum þáttum málsins er ekki að fullu lokið og má nefna að enn liggja ekki fyrir endanleg niðurstaða ýmissra tæknilegra athugana.  Lagt verður kapp á að ljúka rannsókn málsins á næstu vikum og rannsóknargögn þá send ríkissaksóknara til ákærumeðferðar.