27 Ágúst 2010 12:00
Síðdegis í gær var íslenskur karlmaður á þrítugsaldri handtekinn grunaður um að hafa orðið Hannesi Þór Helgasyni að bana þann 15. ágúst sl. Maðurinn hefur áður verið handtekinn og yfirheyrður vegna málsins og haft réttarstöðu grunaðs. Ný gögn í málinu gerðu það að verkum að rökstuddur grunur er talinn vera fyrir hendi um að hann eigi aðild að andláti Hannesar. Í kjölfar handtökunnar nú var gerð ítarleg húsleit á heimili mannsins og hald lagt á muni sem þar var að finna og tengjast hugsanlega rannsókninni.
Ekki er unnt að greina nánar frá þessum nýju gögnum að öðru leyti en því að þau eru árangur vettvangsvinnu tæknideildar lögreglunnar. Niðurstöður úr lífsýnum sem send voru til Svíþjóðar liggja ekki fyrir en hugsanlegt er að einhverjar bráðabirgðaniðurstöður liggi fyrir jafnvel í næstu viku.
Krafist verður gæsluvarðhalds yfir manninum síðar í dag. Fréttatilkynning verður send út þegar úrskurður dómara liggur fyrir.
Frekari upplýsingar er ekki hægt að veita að svo stöddu.