20 Ágúst 2010 12:00
Rannsókn á andláti Hannesar Þórs Helgasonar hefur staðið yfir allt frá því að hann fannst látinn á heimili sínu við Háaberg í Hafnarfirði laust fyrir hádegi s.l. sunnudag. Strax varð ljóst að honum hafði verið ráðinn bani þar sem áverkar á líkinu bentu til þess. Við rannsókn kom í ljós að eggvopn hafði verið notað við verknaðinn og Hannesi veitt nokkur stungusár sem drógu hann til dauða. Jafnframt var að finna áverka á höndum Hannesar sem benda til þess að hann hafi reynt að verjast atlögunni. Samkvæmt niðurstöðum réttameinafræðings hefur dánarstund verið þá fyrr þennan morgun eða seint um nóttina. Niðurstöður vettvangsrannsóknar benda til að Hannes hafi hugsanlega verið sofandi í rúmi sínu þegar atlagan var gerð.
Eðli málsins samkvæmt fór í gang umfangsmikil rannsókn lögreglu en þrátt fyrir það hefur það ekki leitt til þess að neinn sé í haldi lögreglu grunaður um verknaðinn. Vel á fjórða tug manna hafa verið yfirheyrðir í tengslum við rannsóknina. Flestir hafa verið boðaðir til skýrslutöku, marga hefur lögreglan rætt við utan lögreglustöðvar og örfáir hafa verið handteknir og færðir til yfirheyrslu. Í tveimur tilvikum hefur mönnum verið haldið, eftir yfirheyrslur, í allt að sólarhring meðan rannsökuð voru nánar atriði þeim tengdum. Í hvorugu tilvikinu reyndust, að mati lögreglu, efni til að færa mennina fyrir dómara og krefjast gæsluvarðhalds.
Það að grunuðum mönnum er sleppt, ýmist strax eftir yfirheyrslur eða síðar, þýðir ekki að rannsóknin færist í hvert skipti aftur á byrjunarreit. Í raun þvert á móti. Því fleiri sem lögreglan getur útilokað sem grunaða, því meira hlýtur hringurinn að þrengjast um þann seka. Því fleiri möguleika sem lögreglan getur útilokað, því meiri kraft getur hún sett í þá sem eftir standa. Þegar þannig háttar sem í þessari rannsókn, eru þetta þau vinnubrögð sem lögreglan viðhefur, útilokar alla þar til hinn seki stendur einn eftir.
Hátt á fjórða tug lögreglumanna starfar að rannsókninni og svo verður áfram. Tæknivinnu á vettvangi er að mestu lokið en vettvangur verður þó innsiglaður áfram fyrst um sinn. Lífsýni, sem aflað hefur verið á vettvangi, hafa verið send á rannsóknarstofu í Svíþjóð til greiningar. Úr öðrum gögnum er verið að vinna hér innan embættisins.
Eggvopnið, sem notað var við verkaðinn, fannst ekki á vettvangi og hefur ekki fundist þrátt fyrir leit lögreglu. Um er að öllum líkindum að ræða oddhvasst eggvopn með u.þ.b. tveggja sentimetra blaðbreidd. Líklega er um að ræða einhverskonar hníf með egg einungis öðru megin en bakka á hinn veginn. Blaðlengd er ekki vituð er þó líklega ekki undir 15-20 sentimetrum. Líklega eru ekki eiginleg hjöltu á hnífnum.
Engin merki benda til að hinum almenna borgara stafi hætta af þeim sem varð Hannesi að bana. Um þetta er þó erfitt að fullyrða þar sem enn er ekki vitað hver var að verki. Atlagan virðist hafa beinst gegn Hannesi einum og ekki hafa verið tilviljanakennd. Ekki er talið líklegt að tilviljun ein hafi ráðið því að farið hafi verið inn í þetta hús, þ.e. heimili Hannesar, á þessum tíma sólarhrings og honum ráðinn bani með þessum hætti.
Því er beint til almennings að leggja lögreglunni lið í rannsókninni. Fólk er hvatt til að koma upplýsingum til lögreglu um hvaðeina sem það telur hugsanlega geta snert rannsókn málsins. Sama hversu litlar eða ómerkilegar fólki kann að finnast þær vera, þær gætu skipt máli í heildarmyndinni og leitt til þess að málið upplýsist. Símanúmer lögreglunnar er 444-1104 og þar er svarað hvort sem er á nóttu eða degi.