18 Ágúst 2009 12:00

Karl um þrítugt fannst látinn í húsi í Hafnarfirði seint í gærkvöld. Hann var með áverka á höfði. Karl á svipuðum aldri var handtekinn við húsið og er hann grunaður um verknaðinn. Krafa um gæsluvarðhald verður væntanlega lögð fram síðar í dag. Frekari upplýsingar um málið er að finna í fréttatilkynningu sem lögreglan sendi fjölmiðlum í morgun en hana má lesa hér að neðan.

Seint í gærkveldi, eða kl. 23:27, var tilkynnt til lögreglu að manndráp hafi verið framið í húsi í iðnaðarhverfi (Hraununum) í Hafnarfirði. Er lögreglan kom á vettvang fann hún látinn mann í einu herbergi hússins en í húsinu eru leigð út herbergi. Maðurinn var með höggáverka á höfði sem taldir eru hafa dregið hann til dauða. Við húsið handtók lögreglan mann sem grunaður er um verknaðinn. Hann var blóðugur og í annarlegu ástandi. Ekki hefur verið unnt að yfirheyra hann sökum ástands hans. Ástæða fyrir verknaðinum er því ókunn enn sem komið er.

Bæði hinn handtekni og hinn látni eru um þrítugt. Talið er að þeir hafi þekkst. Hinn handtekni mun vera búsettur í því herbergi þar sem hinn látni fannst.

Unnið hefur verið sleitulaust að rannsókn málsins í nótt. Skýrslutökur af öðrum íbúum hússins, þar sem ódæðið átti sér stað, standa yfir. Krafa á hendur hinum grunaða um gæsluvarðhald verður væntanlega lögð fram síðar í dag. Hann hefur alloft komið við sögu lögreglu áður, m.a. vegna ofbeldis- og fíkniefnabrota.

Frekari upplýsingar verða sendar út eftir því sem rannsóknin gefur tilefni til.