23 Október 2015 08:55

Karlmaður á fertugsaldri er í haldi Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu grunaður um að hafa orðið manni að bana í húsi við Miklubraut í Reykjavík í gærkvöld. Lögreglu barst tilkynning um alvarlega líkamsárás í áðurnefndu húsi kl. 21.55, en þegar hún kom á staðinn örskömmu síðar fannst karlmaður um sextugt sem hafði orðið fyrir líkamsárás og var hann úrskurðaður látinn á vettvangi. Lagt var hald á eggvopn, sem grunur leikur á að hafi verið notað við verknaðinn. Hinn látni bjó í húsinu og meintur gerandi sömuleiðis, en enginn annar er grunaður í málinu. Lögð verður fram krafa um gæsluvarðhald yfir hinum handtekna síðar í dag.

Rannsókn málsins er á frumstigi og ekki er hægt að veita frekari upplýsingar að svo stöddu.