20 Ágúst 2006 12:00

Mikill mannfjöldi var á Menningarnótt í gær. Lögreglan í Reykjavík áætlar að 90-100 þúsund manns hafi verið í miðborginni þegar mest var. Hápunkturinn var flugeldasýning klukkan hálfellefu en að henni lokinni héldu flestir til síns heima. Vel gekk að greiða fyrir umferð úr miðborginni en það tók rúma klukkustund í kjölfar þess að formlegri dagskrá lauk.

Margir héldu þó áfram að skemmta sér eftir flugeldasýninguna en talið er að um 15-20 þúsund manns hafi þá verið í miðborginni og fram á nótt. Aðallega voru þetta unglingar en þeim fylgdi töluverður erill fyrir lögregluna. Nokkuð var um pústra en lögreglan var mjög fljót að grípa inn í og koma þannig í veg fyrir alvarleg slagsmál. Ölvun var töluverð eða ámóta og á Menningarnótt í fyrra. Lögreglan hellti niður allnokkru af áfengi en 20 voru fluttir í unglingaathvarf. Ýmist vegna brota á útivistarreglum eða ölvunar.