23 Ágúst 2009 12:00
Mannlífið á Menningarnótt var fjölbreytilegt að vanda. Langflestir borgarar skemmtu sér vel á þessari miklu menningarhátíð en alltaf eru samt einhverjir sem fara út af sporinu. Það átti t.d. við um fjóra ökumenn sem voru teknir fyrir ölvunarakstur í gær. Tveir voru handteknir snemma að morgni Menningarnætur en um var að ræða tvo karla á fertugsaldri. Þeir voru reyndar í sama bílnum sem hafði verið ekið á ljósastaur á Laugarásvegi. Ekki er fyllilega ljóst hvor þeirra var undir stýri þegar bíllinn hafnaði á staurnum en grunur leikur á að báðir hafi komið við sögu í þessari ökuferð. Um tvöleytið í nótt var karl á þrítugsaldri tekinn fyrir ölvunarakstur á Skúlagötu og litlu síðar var 19 ára stúlka stöðvuð fyrir sömu sakir í Smáíbúðahverfinu. Eitthvað var pústra í miðborginni í gærkvöld og nótt en átta líkamsárásir hafa verið tilkynntar til lögreglu, allar minniháttar. Miklu rólegra var annars staðar á höfuðborgarsvæðinu og frekar lítið var um kvartanir undan hávaða í heimahúsum, eins og oft er um helgar. Unglingasamkvæmi í austurborginni fór reyndar úr böndunum í nótt en í það mættu mikið af óboðnum gestum. Húsráðandi, 15 ára stúlka, fékk aðstoð lögreglu við að vísa fólkinu út.