16 Janúar 2020 17:06
Karlmaður um fimmtugt hefur aftur verið úrskurðaður í áframhaldandi fjögurra vikna gæsluvarðhald, eða til 13. febrúar, á grundvelli rannsóknarhagsmuna í þágu rannsóknar Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á mannsláti í austurborginni aðra helgina í desember sl.
Eins og fram hefur komið féll hinn látni, sem var á sextugsaldri, fram af svölum íbúðar fjölbýlishúss í austurborginni og var fluttur á Landspítalann þar sem hann var úrskurðaður látinn.
Rannsókn lögreglu gengur vel, en hún miðar að því að leiða í ljós með hvaða hætti maðurinn féll fram af svölunum.