4 Apríl 2021 14:39

Karlmaður á þrítugsaldri var í dag í Héraðsdómi Reykjaness úrskurðaður í fimm daga gæsluvarðhald, eða til föstudagsins 9. apríl, á grundvelli rannsóknarhagsmuna að kröfu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í þágu rannsóknar hennar á mannsláti í Kópavogi um helgina. 

Eins og kom fram í fyrri tilkynningu lögreglu um málið lést karlmaður um þrítugt á Landspítalanum á laugardag, en þangað var maðurinn fluttur á föstudagsmorgun eftir að hafa orðið fyrir líkamsárás í Kórahverfinu í Kópavogi. Tilkynning um málið barst lögreglu kl. 8.51 að morgni föstudagsins langa, en málsatvik voru í fyrstu mjög óljós. Þrír voru handteknir vegna málsins í gær, en tveimur hefur nú verið sleppt úr haldi og sá þriðji úrskurðaður í gæsluvarðhald eins og að framan greinir.

Ekki er hægt að veita frekari upplýsingar um málið að svo stöddu.