11 Desember 2009 12:00

Kona um þrítugt var í dag í Héraðsdómi Reykjavíkur úrskurðuð í áframhaldandi gæsluvarðhald til 22. desember að kröfu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Hún er grunuð um aðild að mansali og að hafa haft milligöngu um vændi. Konan var handtekin í síðustu viku ásamt konu um tvítugt en þær voru úrskurðaðar í gæsluvarðhald til 11. desember. Yngri konunni var sleppt úr haldi í gær en rannsóknarhagsmunir voru ekki lengur fyrir hendi hvað varðar hennar þátt í málinu. Báðar eru íslenskir ríkisborgarar.

Rannsókn málsins miðar vel en henni er hvergi nærri lokið. Rannsóknin hefur staðið yfir undanfarnar vikur en í tengslum við hana lokaði lögreglan fyrir vændisstarfsemi í húsi í miðborginni. Að minnsta kosti þrjár aðrar konur koma við sögu í  málinu en þær eru taldar hafa lagt stund á vændi. Umræddar konur eru allar á fertugsaldri og af erlendu bergi brotnar. Mál einnar þeirrar er jafnframt rannsakað sem mansalsmál en konurnar þrjár hafa verið færðar til skýrslutöku hjá lögreglu. Rannsóknin tekur einnig til þeirra sem keyptu kynlífsþjónustuna sem veitt var og hafa nokkrir verið yfirheyrðir vegna þessa.