15 Maí 2006 12:00

Lögreglan í Reykjavík stöðvaði 73 ökumenn sem óku bifreiðum sínum á nagladekkjum á tímabilinu 10. maí til 15. maí. Á sama tímabili voru 60 ökumenn stöðvaðir fyrir að aka of hratt um götur borgarinnar, virðist því miður ekkert vera að draga úr hraðakstri. Lögreglubifreið búin hraðakstursmyndavél var staðsett í vesturborginni þann 15. maí og á einni klukkustund voru 25 ökumenn myndaðir þar sem þeir óku bifreiðum sínum of hratt framhjá skóla þar sem 30 km/klst hámarkshraði er. Lögreglumenn gripu einnig 14 ökumenn við að tala í farsíma við akstur án þess að nota handfrjálsan búnað. 18 ökumenn voru kærðir fyrir meinta ölvun við akstur, eiga þeir von á sviptingu ökuréttinda og greiðslu á háum sektum. Athygli vekur að á tímabilinu voru voru settir sektarmiðar á 27 ökutæki þar sem hafði verið lagt ólöglega. Of algengt er að ökumenn leggi bifreiðum sínum á gangstéttum, gangandi vegfarendum til óþæginda. Lögreglumenn hvetja stjórnendur ökutækja að huga að því hvar og hvernig þeir leggja bifreiðum sínum.