26 Janúar 2007 12:00

Tuttugu karlmenn og sex konur voru tekin fyrir hraðakstur á höfuðborgarsvæðinu á síðasta sólarhring. Afskipti voru höfð af þeim víða í umdæminu en ökumennirnir eru á ýmsum aldri. Sá yngsti er 17 ára en sá elsti hálfsjötugur. Sá síðarnefndi var stöðvaður í Hvassahrauni, sunnan Hafnarfjarðar, en bíll hans mældist á 128 km hraða. Mjög margir óku á yfir 100 km hraða í gær og var það jafnt innan sem utanbæjar.

Hraðakstur í íbúðargötum og við skóla er enn áhyggjuefni. Hálffertug kona var tekin á 63 km hraða í Norðurfelli rétt eftir hádegi en þar er leyfður hámarkshraði 30. Þá var 17 ára stúlka tekin við Digranesskóla á 48 km hraða í gærmorgun en þar er leyfður hámarkshraði einnig 30. Liðlega tvítugur piltur var sömuleiðis stöðvaður við Digranesskóla en hann ók ámóta hratt.

Myndavélabíll lögreglunnar er sömuleiðis notaður óspart við hraðamælingar. Í þessari viku var hann m.a. við Stekkjarbakka en þar voru mynduð brot 108 ökumanna. Meðalhraði þeirra var liðlega 63 en leyfður hámarkshraði er 50. Þá voru brot 191 ökumanns mynduð í Hvalfjarðargöngum. Meðalhraði þeirra var tæplega 83 en leyfður hámarkshraði í göngunum er 70.

Í gær voru tuttugu og tvö umferðaróhöpp tilkynnt til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, flest minniháttar. Í einu tilviki var ökumaður fluttur á slysadeild og í öðru ætluðu aðilar sjálfir að leita sér læknisaðstoðar.