5 Desember 2006 12:00
Töluvert var um þjófnaði í borginni um helgina en lögreglunni í Reykjavík bárust allmargar tilkynningar þess efnis. Það eru ekki síst verslunareigendur sem verða fyrir barðinu á þeim óprúttnu aðilum sem stunda þessa miður skemmtilegu iðju. Lögreglumenn voru m.a. kallaðir til í verslunarmiðstöðvar þar sem fólk hafði verið staðið að verki en þjófarnir voru á ýmsum aldri. Þannig má nefna karlmann á fimmtugsaldri sem tók hangikjötslæri, konu á fertugsaldri sem stal tösku og sokkabuxum og unglingsstúlku sem reyndi að komast yfir peninga. Þjófarnir beittu ýmsum aðferðum en tveir þeirra rifu umbúðir utan af vörum áður en þeir létu sig hverfa með varninginn.
Þá hvarf handlyftari sem var staðsettur utan við lagerhúsnæði. Á lyftaranum voru nokkrir kassar af drykkjarvöru og þeirra er einnig saknað. Skartgripir voru teknir úr heimahúsi og þar lá gestkomandi undir grun og þá var peningum stolið af viðskiptavini spilasalar. Tölvu var stolið í fyrirtæki á meðan afgreiðslumaðurinn brá sér afsíðis og þá voru minnst þrír bensínþjófar á ferðinni þessa sömu daga. Greiðslukortum var líka stolið um helgina og þá var tilkynnt um þjófnað á kerru.