31 Janúar 2014 12:00

Það er oft vandlifað, ekki síst fyrir þá sem búa í hljóðbærum fjölbýlishúsum. Árlega berast lögreglu fjölmargar tilkynningar þar sem kvartað er undan hávaða, en mál sem þessi getur verið snúið að leysa. T.d. ef hrotur eins íbúa halda vöku fyrir öðrum og líka ef einhver er gjarn á að fá martraðir og vaknar síðan alltaf upp með hljóðum. Háttstillt vekjaraklukka getur líka skapað vandamál eins og dæmin sanna, en ein slík vakti heimilishund í íbúð í ónefndri blokk í Reykjavík. Við lætin í klukkunni fór nefnilega hundurinn í næstu íbúð að gelta linnulaust, en eigandi vekjaraklukkunnar hringdi í lögregluna og kvartaði undan óðum hundi nágrannans! Lögreglan kom auðvitað á staðinn, en þá hafði hundurinn róast og ekki var þörf á frekari inngripum.