1 Júní 2012 12:00

Einhverra hluta vegna koma klósett stundum við sögu í málum sem koma á borð lögreglu. Á dögunum var greint frá konu sem var í drjúga stund læst inni á klósetti í íbúð fjölbýlishúss á höfuðborgarsvæðinu og þurfti að brjóta sér leið þaðan út. Fyrr í vikunni lenti síðan fullorðinn maður í vandræðum eftir að hafa brugðið sér á klósett hjá opinberri stofnun. Eitthvað dróst vera hans á klósettinu á langinn því þegar maðurinn kom út af því aftur var búið að slökkva ljósin í afgreiðslunni og læsa útidyrahurðinni. Starfsfólkið var jafnframt á bak og burt og maðurinn því fastur þarna inni. Það varð honum hins vegar til happs að vera með síma og get hringt eftir hjálp. Lögreglu var gert viðvart en úr varð að öryggisverðir fóru á staðinn og leystu manninn úr prísundinni. Hann var afar þakklátur fyrir aðstoðina. Klósett kom líka við sögu með óbeinum hætti þegar lögreglan var kölluð til vegna innbrots á verkstæði. Engu reyndist hafa verið stolið en kannski var það því að þakka að innbrotsþjófnum hafði orðið brátt í brók. Ekkert klósett var á staðnum og því greip kauði í fötu til að gera þarfir sínar. Þrátt fyrir „sönnunargögn” á vettvangi tókst ekki að varpa frekara ljósi á þann sem þarna var á ferð.