1 Mars 2013 12:00
Áhyggjufullur borgari hringdi í lögregluna í vikunni og greindi frá því að skammt frá Krýsuvíkurvegi væri kona á gangi með ungt barn í fanginu. Tilkynnanda fannst þetta heldur undarlegt og óttaðist að eitthvað alvarlegt hefði komið fyrir. Lögreglan tók málið að sjálfsögðu alvarlega og sendi lögreglumann strax á vettvang. Vel gekk að finna konuna, en hún reyndist vera með hund í fanginu. Ekkert amaði að konunni, en hún var vel búin til útivistar. Það sama verður hins vegar ekki sagt um hvutta því hann var dauðþreyttur og hafði gefist upp á göngunni. Konan virtist hins vegar vera í fínu formi og lét sig ekki muna um að halda á fjórfætlingnum. Ekki er vitað hverrar tegundar hundurinn var, en líklega var þetta einhverskonar smáhundur og sjálfsagt eru þeir misgóðir þegar langir göngutúrar eru annars vegar.
Hér fór því allt vel, en sem fyrr er mikilvægt að muna að það er betra að hringja einu sinni of oft í lögregluna en einu sinni of sjaldan. Hún reynir ávallt að bregðast við fljótt og vel og gildir þá einu hvort í hlut eiga menn eða málleysingjar.