19 Ágúst 2022 15:03

Nú þegar Menningarnótt er fram undan á morgun, laugardaginn 20. ágúst, eru nokkur atriði sem gott er að hafa í huga. Lögreglan vill t.d. sérstaklega minna vegfarendur á að virða þær lokanir sem verða settar upp á hátíðinni og fara eftir leiðbeiningum þeirra sem verða við umferðarlokanir.

Enn og aftur er fólk hvatt til að nýta sér strætó og hinir, sem ætla að nota einkabílinn, til að leggja löglega. Það verður frítt í strætó á höfuðborgarsvæðinu á Menningarnótt og það ættu gestir á hátíðinni endilega að nýta sér. Jafnframt verður strætó með skutlþjónustu, sem ekur frá Laugardalshöll um Borgartún og Hlemm að Hallgrímskirkju og til baka. Strætóskutlan, það er líka frítt í hana, verður á ferðinni fram yfir miðnætti, eða þar til miðborgin hefur verið tæmd.

Lögreglan vill enn fremur brýna það sérstaklega fyrir foreldrum að skilja börn sín ekki eftir í miðbænum þegar dagskránni lýkur með flugeldasýningu annað kvöld. Lögreglan mun taka hart á drykkju unglinga og vonast eftir góðri liðveislu foreldra í því. Börn yngri en 16 ára verða færð í athvarf fyrir ungmenni séu þau úti eftir lögboðinn útivistartíma samkvæmt barnaverndarlögum svo og þau ungmenni yngri en 18 ára, sem eru undir áhrifum áfengis og/eða annarra vímugjafa.

Minnum á þjónustusíma Reykjavíkurborgar, 411 1111, en hann verður opinn á Menningarnótt frá kl. 8.30 – 23.

Góða skemmtun á morgun – njótum saman sem fjölskylda og verum góðar fyrirmyndir. Hlökkum til að eiga frábæra Menningarnótt saman.

Meðfylgjandi er kort af hátíðarsvæðinu.