13 Nóvember 2006 12:00
Lögreglunni í Reykjavík bárust fjölmargar tilkynningar vegna rúðubrota um helgina. Brotnar voru rúður í tíu bílum víðsvegar um borgina og þá voru speglar brotnir af ellefta bílnum. Rúður voru sömuleiðis brotnar hjá sex fyrirtækjum í umdæminu.
Skemmdarvargar reyndu líka að kveikja í strætóskýli og í dyrabjöllum í fjölbýlishúsi. Þá voru veggjakrotarar á ferð við eina af stofnunum borgarinnar og skyldu eftir sig ljót ummerki. Óprúttnir aðilar komu líka við sögu þegar stungið var í alla hjólbarða tveggja bíla á tveimur stöðum um helgina.
Nokkur þjófnaðarmál voru tilkynnt til lögreglunnar, m.a. þrír bensínþjófnaðir. Einn bensínþjófurinn náðist strax en hann hafði leikið sama leikinn fáeinum dögum áður. Þá kom kona á bensínstöð og óskaði eftir greiðslu fyrir tvo gaskúta sem hún var að skila. Konan fékk ekki endurgreitt enda hafði hún tekið umrædda gaskúta ófrjálsri hendi tveimur dögum fyrr. Nokkrir þjófar voru líka gripnir glóðvolgir í hinum ýmsum verslunum. Einna stórtækastur var tæplega þrítugur karlmaður sem reyndi að stela risastórum sjónvarpsskjá.