10 Nóvember 2017 09:51

Afbrotatölfræði lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu fyrir októbermánuð 2017 hefur verið birt. Í skýrslunni eru teknar saman upplýsingar um helstu afbrot sem hafa verið tilkynnt til lögreglu. Fjallað er um þróunina á síðustu 13 mánuðum og tölur það sem af er ári bornar saman við sama tímabil síðustu þriggja ára.

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu bárust 812 tilkynningar um hegningarlagabrot í október og fækkaði tilkynningum nokkuð á milli mánaða. Þrátt fyrir fækkun hegningarlagabrota í heild þá fjölgaði tilkynntum innbrotum miðað við fjölda þeirra sl. 12 mánuði á undan, og á það sérstaklega við um innbrot á heimili. Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu bárust 88 tilkynningar um innbrot í október og þar af 37 tilkynningar um innbrot á heimili. Það sem af er ári hafa borist fleiri tilkynningar um innbrot en á sama tíma í fyrra, fjöldinn er þó undir meðaltali síðustu þriggja ára. Tilkynntum kynferðisbrotum fjölgaði í október miðað við meðalfjölda þeirra síðustu mánuði á undan. Tilkynntum nauðgunum fjölgaði mest í mánuðinum og hafa ekki borist jafn margar tilkynningar um nauðganir á svæðinu í einum mánuði frá því í júlí á síðasta ári. Þá fjölgaði einnig þeim málum þar sem ökumaður var grunaður um ölvun við akstur. Skráð voru 107 slík mál í október og hafa þau ekki verið fleiri frá því í júlí 2007 þegar 111 ölvunarakstrar voru skráðir.