11 Júní 2017 13:35
Búist er við mikilli umferð vegna landsleiks Íslendinga og Króata á Laugardalsvelli í kvöld klukkan 18.45 og er knattspyrnuáhugamönnum bent á að leggja tímanlega af stað og sýna þolinmæði. Svokallað Fan Zone verður opnað 2 klst. fyrir leik á bílastæðinu fyrir framan völlinn, en þar verður jafnframt hægt að horfa á leikinn á risaskjá. Fólk er minnt á að leggja löglega, en veðurútlitið fyrir leikinn er frábært og því ætti engum að muna um að leggja smáspöl frá leikvanginum og ganga í fáeinar mínútur að vellinum. Eins er upplagt, og jafnvel betra, að nýta sér ferðir strætó af þessu tilefni. Uppselt er á leikinn og verða áhorfendur á Laugardalsvellinum tæplega 10 þúsund, auk fjölmargra annarra sem munu væntanlega horfa á leikinn á risaskjá fyrir utan völlinn. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu verður með nokkurn viðbúnað vegna leiksins, en hennar hlutverk er að tryggja að allt gangi vel fyrir sig. Sérstök athygli er vakin á því að miðabrask er ólöglegt, líkt og Knattspyrnusambandið hefur þegar vakið máls á, og á því verður tekið í dag ef upp um það kemst.
Að síðustu vill Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu geta þess að hún vonast eftir hagstæðum úrslitum í kvöld, en leikurinn er gríðarlega mikilvægur í baráttu þjóðanna um sæti í lokakeppni HM á næsta ári. Áfram Ísland!