7 Ágúst 2008 12:00
Búist er við mikilli umferð vegna tónleika í Egilshöllinni í Grafarvogi annað kvöld, föstudaginn 8. ágúst. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu beinir því til tónleikagesta að þeir leggi tímanlega af stað og sýni þolinmæði. Ekki síst eftir tónleikana en þá verður umferðin væntanlega enn þyngri. Lögreglan mun stýra umferðinni eftir því sem þörf krefur. Gera má ráð fyrir að margir kjósi að fara um Víkurveg en góð aðkoma til og frá Grafarvogi er einnig um Gullinbrú og Korpúlfsstaðaveg.
Ljóst er að ekki geta allir tónleikagestir lagt ökutækjum sínum við Egilshöllina en í nágrenni hennar eru víða ágæt bílastæði, líkt og tónleikahaldarar hafa bent á. T.d. við skóla í hverfinu sem og verslunarmiðstöðvar. Veðurútlitið er ágætt og því ætti engum að muna um að leggja smáspöl frá tónleikastaðnum og ganga í nokkrar mínútur að Egilshöllinni.