7 September 2006 12:00
Mikill hraðakstur er enn við grunnskóla og í íbúðargötum í borginni. Þetta hefur ítrekað komið fram við umferðareftirlit lögreglunnar í Reykjavík, nú síðast í gær. Þetta á við um nær öll hverfi.
Fylgst var með umferð úr myndavélabíl lögreglunnar í tveimur hverfum í gær. Á öðrum staðnum var myndavélabíllinn við grunnskóla en þar ók nærri þriðjungur ökumanna á tæplega 50 km hraða. Á þessum umrædda stað er leyfilegur hámarkshraði 30 km.
Á hinum staðnum var fylgst með umferð við mjög fjölfarna íbúðargötu í nágrenni grunnskóla. Þar var mældur hraði rúmlega hundrað ökutækja en meðalhraði helmings þeirra var liðlega 50 km. Á þessum tiltekna stað er sömuleiðis 30 km hámarkshraði.
Samtals eiga sjö manns yfir höfði sér ökuleyfissviptingu vegna hraðaksturs í gær.