17 Febrúar 2010 12:00
Það var aldeilis líf og fjör á lögreglustöðvum í umdæmi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í dag enda öskudagur. Fjölmargir hressir krakkar litu við og tóku lagið, lögreglumönnum til óblandinnar ánægju. Eins og við var að búast höfðu krakkarnir farið í skrautlega búninga og mátti sjá margar persónur úr heimi kvikmynda- og skemmtanaiðnaðarins. Stjórnmálamenn mátti líka finna í þessari fjölbreyttu flóru en bæði Jóhanna forsætisráðherra og Steingrímur fjármálaráðherra litu við á lögreglustöðinni í Kópavogi í morgun, líkt og sjá má á meðfylgjandi mynd. Jóhanna sagði í sífellu að hennar tími myndi koma og veifaði jafnframt Icesave-plaggi ótt og títt. Minna fór fyrir Steingrími sem hafði meðferðis fulla tösku af fjármunum! Þau tóku lagið ásamt tveimur stjörnum úr skemmtanabransanum en fjórmenningarnir sungu svo vel að eftir var tekið.