11 Október 2006 12:00

Fjörutíu ökumenn voru stöðvaðir í umdæmi lögreglunnar í Reykjavík í gær fyrir þær sakir að nota ekki bílbelti. Hinir sömu eiga sekt yfir höfði sér en það vekur furðu að fólk skuli ekki spenna beltin. Notagildi þeirra er margsannað en beltin geta komið í veg fyrir alvarleg meiðsli og jafnvel dauða.

Í gær urðu tuttugu og fimm árekstrar í borginni en í fimm þeirra urðu slys á fólki. Sem fyrr er mikið um aftanákeyrslur en ein slík varð á Höfðabakka undir hádegisbil. Þar lentu fjórir bílar saman en fremsta bílnum ók 17 ára piltur sem var í verklegu ökuprófi ásamt prófdómara. Hann mun hafa fipast við aksturinn og því snarhemlað með fyrrgreindum afleiðingum.

Þá eiga fimmtíu ökumenn von á sekt fyrir hraðakstur. Það var myndavélabíll lögreglunnar sem myndaði brot flestra þeirra. Umræddur lögreglubíll var staðsettur við Vesturlandsveg á móts við Klébergsskóla en þar er 70 km hámarkshraði. Meðalhraði hinna brotlegu var 90 km/klst. Annars var lögreglan við hraðamælingar mjög víða í umdæminu og mun halda því áfram af fullum krafti.