20 Júlí 2006 12:00
Svo virðist sem börn og unglingar séu ekki nógu dugleg að nota öryggishjálma þegar þau eru úti á hjólum, línuskautum eða hlaupahjólum. Lögreglan í Reykjavík gerði könnun á búnaði reiðhjóla í einu hverfa borgarinnar í gær sem rennur stoðum undir þetta. Ýmsu reyndist ábótavant hvað varðaði lögbundinn búnað reiðhjóla. Verst af öllu voru þó sláandi tölur um notkun öryggishjálma við hjólreiðar. Meirihluti þeirra barna og unglinga, sem lögreglan ræddi við í gær, notaði ekki hjálma. Ljóst er að forráðamenn verða að fylgja því betur eftir að krakkarnir noti nauðsynlega öryggisbúnað.
Sama dag og könnunin var gerð var ekið á ungan dreng á hlaupahjóli. Sá slasaðist m.a. á höfði og ljóst þykir að öryggishjálmur hefði komið þar að góðu gagni. Því brýnir lögreglan það fyrir öllum að nota ávallt öryggishjálm.