29 Janúar 2007 12:00

Nýliðin helgi var að mestu róleg í Hafnarfirði en eftir hana eru í gangi nokkur mál á svæðisstöðinni. Nokkuð bar á því að farið var inn í bíla um helgina, bæði læsta og ólæsta. Á Hvaleyrarholti var farið inn í þrjá bíla á föstudaginn en ekkert tekið. Sama dag var geislaspilara stolið úr vörubíl við Haukahúsið á Ásvöllum. Lögreglan hvetur fólk til að skilja ekki eftir verðmæti í bílum sínum en hylja þau ef ekki verður við öðru komið.

Á laugardagskvöld var flugeld skotið á hús í Hvammahverfi með þeim afleiðingum að rúða í húsinu brotnaði. Nokkuð hefur borið á því að unglingar séu enn að sprengja flugelda en það er með öllu óheimilt. Lögreglan hvetur fólk til að fylgjast með því hvort börn þeirra séu að meðhöndla sprengiefni.

Um helgina var farið var inn í hjólhýsi sem stendur við íbúðarhús. Gluggi á hjólhýsinu var spenntur upp og ummerki bentu til þess að sá sem það gerði hafi vantað næturgistingu. Engu var stolið úr hjólhýsinu. Í söluturn kom enskumælandi maður og hugðist kaupa tóbak. Hann bað afgreiðslustúlkuna um tvö karton af ónefndri tegund en þegar tóbakið var lagt á borðið hrifsaði maðurinn sígaretturnar og hljóp á brott án þess að greiða fyrir varninginn. Maðurinn er ófundinn.

Fylgst var með akstri á Hjallabraut á sunnudagskvöld en þar er 50 km hámarkshraði. Við mælingar reyndist meðalhraði ökumanna vera tæplega 52 km/klst.