18 September 2006 12:00

Lögreglan í Reykjavík sinnti margvíslegum verkefnum um helgina. Í einu þeirra var hún kölluð til þegar erlendir ferðamenn höfðu reist tjald sitt á sólpalli við fjölbýlishús í borginni. Fólkinu var gert að taka tjald sitt og leita sér gistingar annars staðar. Þá kom lögreglan ölvuðum manni til aðstoðar en sá var nakinn á almannafæri. Maðurinn gat engar skýringar gefið á þessu athæfi og sömuleiðis var fátt um svör þegar leita átti eftir fötum hans. Lögreglunni tókst að útvega spjarir á manninn og síðan var honum ekið til síns heima.

Allnokkuð var um útköll vegna slysa á fólki. Á föstudag var ekið á gangandi vegfarenda sem mun hafa fótbrotnað. Sama dag varð maður fyrir lyftara í vörugeymslu með þeim afleiðingum að hann fótbrotnaði einnig. Á laugardag datt ölvuð kona og slasaðist á höfði. Þá fótbrotnaði unglingur sem var að leika sér á hjólinu sínu.

Aðfaranótt sunnudags var ekið á vegfarenda á gangbraut en meiðsli hans eru talin minniháttar. Í gær féll líka maður af hjólinu sínu og skrámaðist talsvert. Þá er ótalinn bifhjólmaður sem fékk nokkuð slæma byltu í gærkvöld. Af þessu sést að lögreglan hafði í ýmsu að snúast og eru þá ónefnd slagsmál og pústrar. Eitthvað bar á slíku um helgina en þó ekki meira en gengur og gerist.