15 Júní 2012 12:00

Því miður gengur ekki öllum jafnvel að lifa í sátt og samlyndi við nágranna sína. Þessa dagana er lögreglan annað slagið að sinna útköllum, sem kalla má árstíðabundin. Þetta snýr m.a. að garðslætti en almenna reglan er sú að óviðeigandi er slá blettinn mjög snemma á morgnana eða seint á kvöldin. Garðsláttur að næturlagi er sömuleiðis afleit hugmynd og pottþétt að slíkt endar með afskiptum lögreglu, eins og raunin varð á í Kópavogi á dögunum. Það er líka óskynsamlegt að fara í annarra manna garða og saga niður tré, jafnvel þótt manni finnist þau skyggja á sólina, sem ætti að skína í manns eigin garði en þannig mál kom upp í Háaleitishverfi fyrir ekki ýkja löngu.

Furðuvel gengur samt að sjatla málin á vettvangi en á því eru vissulega undantekningar. Ágreiningur tengist oft brölti fólks að næturlagi en stundum er fótavistin algerlega nauðsynleg, t.d. þegar náttúran kallar. Að pissa í klósettið á nóttunni er auðvitað ekki lögreglumál en verður það þegar nágranninn hringir í 112 og kvartar yfir því að næturró hans sé raskað þar sem klósettsetunni á efri hæðinni, eða neðri hæðinni ef því er skipta, var lokað svo harkalega að ónæði hlaust af. Eins og gefur að skilja getur sönnunarbyrðin verið dálítið flókin í þessum tilvikum en lögreglumenn á vettvangi reyna alltaf sitt besta svo allir skilji sáttir. Lögreglan sinnti þessháttar útkalli í úthverfi á dögunum en þar var um mikinn ágreining nágranna að ræða. Lögreglumenn reyndu hvað þeir gátu að leiðbeina um hvernig mögulega væri hægt að gera klósettferðina hljóðlátari og hurfu síðan til annarra verka. Engum sögum fer af því hvort leiðbeiningar þeirra báru árangur.